Þægilegt hjá Evrópumeisturunum

Spánverjar fagna eftir sigurinn gegn Serbíu.
Spánverjar fagna eftir sigurinn gegn Serbíu. AFP/Cristina Quicler

Evrópumeistarar Spánar áttu ekki í teljandi vandræðum með Serbíu þegar liðin mættust í 4. riðli A-deildar Þjóðadeildar karla í knattspyrnu á Spáni í kvöld.

Leiknum lauk með öruggum sigri Spánverja, 3:0, þar sem þeir Aymeric Laporte, Álvaro Morata og Alejandro Baena skoruðu mörk spænska liðsins.

Þá bjargaði Christian Eriksen jafntefli fyrir Danmörku þegar liðið heimsótti Sviss en hann jafnaði metin í 2:2 á 69. mínútu. Áður hafði Remo Freuler komið Sviss yfir en Gustav Isaksen jafnaði metin fyrir Dani ápur en Zeki Amdouni kom Sviss yfir á nýjan leik með marki úr vítaspyrnu.

Spánverjar eru með 10 stig í efsta sæti riðilsins, Danmörk er með 7 stig, Serbía með 4 stig og Sviss rekur lestina með 1 stig.

Þrjú mörk á sjö mínútna kafla

Króatar misstu niður tveggja marka forskot þegar liðið heimsótti Pólland í 1. riðli A-deildarinnar en leiknum lauk með jafntefli, 3:3.

Piotr Zielinski kom Króatíu yfir strax á 5. mínútu áður en þeir Borno Sosa, Petar Sucic og Martin Baturina skoruðu sitt markið hver fyrir Pólland á sjö mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleikinn.

Nicola Zalewski minnkaði muninn fyrir Pólverja á 45. mínútu áður en Sebastian Szymanski jafnaði metin fyrir pólska liðið á 68. mínútu og þar við sat. Á sama tíma gerðu Skotland og Portúgal markalaust jafntefli í Skotlandi.

Portúgal er í efsta sæti riðilsins með 10 stig, Króatía er með 7 stig, Pólland er með 4 stig og Skotland rekur lestina með 1 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert