Í áfalli yfir ákvörðun Englendinga

Jude Bellingham er einn besti leikmaður enska landsliðsins.
Jude Bellingham er einn besti leikmaður enska landsliðsins. AFPG/Glyn Kirk

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Gary Neville er allt annað en sáttur með ákvörðun enska knattspyrnusambandsins sem kynnti Þjóðverjann Thomas Tuchel sem nýjan landsliðsþjálfara karlaliðsins í dag.

Neville er ósáttur við að erlendur þjálfari hafi verið fenginn í starfið, en Tuchel er þriðji erlendi þjálfarinn sem tekur við enska liðinu á eftir Ítalanum Fabio Capello og Svíanum Sven-Göran Eriksson.

„Þetta snýst ekki um Thomas Tuchel, en ég er í áfalli yfir að England hafi valið erlendan þjálfara. Það hefur slæm áhrif á okkar eigin þjálfara.

Tuchel verður harðlega gagnrýndur um leið og eitthvað gengur ekki upp. Það er eitthvað ekki í lagi við að Tuchel sé landsliðsþjálfari Englands,“ sagði hann í hlaðvarpi sínu The Overlap.

Jamie Carragher, sem lék lengi með Liverpool, tók í sama streng í sama hlaðvarpi.

„Það er skammarlegt að við þurfum erlendan þjálfara til að ná árangri. Það á að vera Englendingur sem þjálfar enska landsliðið,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert