Opnar sig um dótturmissinn

Luis Enrique, þjálfari PSG.
Luis Enrique, þjálfari PSG. AFP

Luis Enrique, knattspyrnustjóri karlaliðs Parísar SG í knattspyrnu, opnaði sig í nýjum heimildarþáttum um líf sitt um það þegar dóttir hans Xana lést eftir fimm mánaða baráttu við krabbamein.

Xana féll frá í júní 2019 eftir baráttu við beinsarkmein og steig Enrique þá til hliðar sem landsliðsþjálfari karlaliðs Spánar. Greindi hann opinberlega frá fráfalli hennar í ágúst það ár.

„Tel ég mig vera lánsaman eða ólánsaman? Ég tel mig vera lánsaman, svo ósköp lánsaman. Dóttir mín Xana var hjá okkur í níu dásamleg ár.

Við eigum þúsund minningar um hana, myndbönd, ótrúlega hluti,“ sagði Enrique í þriðja þætti heimildarþáttaraðinnar Þið hafið ekki hugmynd eins og heitið myndi útleggjast á íslensku.

Gat ekki átt ljósmyndir

„Móðir mín gat ekki haldið upp á ljósmyndir af Xönu. Það var ekki fyrr en ég kom heim og spurði: „Mamma, af hverju eru engar myndir af Xönu?“ „Ég get það ekki, ég get það ekki,“ var hún vön að segja.

„Mamma, þú verður að setja upp myndir af Xönu. Xana lifir áfram,“ svaraði ég. Hún er ekki hérna holdi klædd en hún er með okkur í anda. Við tölum um hana á hverjum degi, hlæjum og minnumst hennar því ég tel að Xana sjái okkur ennþá,“ bætti hann við.

Enrique hét því þá að halda minningu Xönu á lofti og þeirri hamingju sem geislaði af henni öllum stundum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert