Freyr ræddi opinskátt um Cardiff-sögusagnirnar

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. Ljósmynd/K.V. Kortrijk

Það hefur gustað um knattspyrnuþjálfarann Frey Alexandersson undanfarnar vikur en þjálfarinn er á sínu fyrsta heila tímabili hjá belgíska A-deildarfélaginu Kortrijk.

Freyr, sem er 41 árs gamall, tók við þjálfun belgíska liðsins í janúar á þessu ári og bjargaði liðinu frá falli á ævintýralegan hátt en liðið var með tíu stig eftir 20 umferðir í neðsta sæti deildarinnar þegar íslenski þjálfarinn tók við.

Freyr var þriðji þjálfarinn sem var ráðinn til Kortrijk, bara á síðasta tímabili, en liðið endaði í 14. og þriðja neðsta sæti deildarinnar með 41 stig. Kortrijk bjargaði sér svo endanlega frá falli þann 26. maí þegar liðið hafði betur gegn Lommel, sem hafnaði í 4. sæti B-deildarinnar, en þá mættust liðin í hreinu úrslitaeinvígi um sæti í A-deildinni. Kortrijk vann einvígið samanlagt 5:2.

Kortrijk hefur farið ágætlega af stað á tímabilinu og situr sem stendur í 12. sæti deildarinnar með 11 stig eftir tíu umferðir en liðið vann meðal annars topplið Genk, 2:1, á heimavelli í síðustu umferð.

Var mjög ósáttur

Freyr var meðal annars orðaður við þjálfarastöðuna hjá Cardiff í ensku B-deildinni á dögunum en eigendahópurinn þar er sá sami og hjá Kortrijk. Einhverjir fjölmiðlar í Belgíu slógu því meðal annars upp að Freyr hefði hringt sig inn veikan og svo ferðast með einkaþyrlu til Cardiff til þess að hitta eigendur velska félagsins.

„Yfirleitt þá hefur það ekki truflað mig neitt sérstaklega þegar ég er orðaður við önnur félög. Það gerði það samt núna því það var mikið fjölmiðlafár í kringum þetta. Ég get auðvitað ekki stjórnað því við hvaða félög ég er orðaður en þegar það er logið upp á mann, að maður sé að ljúga að leikmönnum og starfsliðinu, það er eitthvað sem ég sætti mig ekki við. Það versta í þessu var að fólk trúði þessu og það var mikil óánægja með þetta, sérstaklega hjá stuðningsmönnum félagsins sem margir hverjir trúa þessu ennþá. Þetta var virkilega pirrandi og ég var mjög ósáttur.

Fyrir utan það þá er ég í sambandi við eigendur félagsins, sem eiga Cardiff líka, tvisvar sinnum í viku. Ég þarf ekki að fljúga á einkaþyrlu til Bretlands til þess að hitta þá. Þessi fréttaflutningur átti sér ekki stoð í raunveruleikanum heldur. Fyrir einhverjum árum kitlaði það egóið þegar þú varst orðaður við hin og þessi félög en ég held að ég sé kominn á þann stað í dag að það er bara ágætt ef svona fréttir leka ekki út.“

Ítarlegt viðtal við Frey Alexandersson má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert