„Velkominn til Juventus Arda Güler“

Arda Güler í leik með Real Madríd á dögunum.
Arda Güler í leik með Real Madríd á dögunum. AFP/Franck Fife

Ítalska knattspyrnufélagið Juventus tilkynnti ansi óvænt um kaup karlaliðsins á tyrkneska ungstirninu Arda Güler á enskumælandi X-aðgangi sínum í dag. Reyndist tilkynningin ekki á rökum reist.

„Velkominn til Juventus Arda Güler. Rísandi stjarna knattspyrnunnar er nú hluti af Juventus-fjölskyldunni,“ sagði í tilkynningu félagsins á samfélagsmiðlinum X í dag.

Juventus fann sig hins vegar knúið til þess að leiðrétta þessa tilkynningu í annarri slíkri sem kom sannarlega frá félaginu á ítölskum aðgangi þess á X.

Þar kom fram að enskur aðgangur Juventus hafi verið hakkaður og að fólk skyldi hunsa þær fölsku upplýsingar sem höfðu komið fram á honum.

Arda Güler, sem er 19 ára sóknartengiliður, er því enn leikmaður Real Madríd og virðist síður en svo á förum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert