Lygilegur viðsnúningur Evrópumeistaranna – Villa vann

Vinícius Júnior skoraði þrennu í kvöld.
Vinícius Júnior skoraði þrennu í kvöld. AFP/Thomas Coex

Real Madríd vann ótrúlegan 5:2-sigur á Borussia Dortmund í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld eftir að hafa verið 0:2 undir í hálfleik.

Bæði lið hafa nú unnið sér inn sex stig í fyrstu þremur umferðunum.

Donyell Malen kom Dortmund í forystu eftir hálftíma leik áður en Jamie Bynoe-Gittens tvöfaldaði forystuna skömmu síðar.

Eftir klukkutíma leik minnkaði Antonio Rüdiger muninn fyrir heimamenn í Real Madríd og stuttu síðar var Vinícius Júnior búinn að jafna metin.

Lucas kom Madrídingum yfir sjö mínútum fyrir leikslok og Vinícius Júnior bætti svo við öðru marki sínu og fjórða marki Real.

Í uppbótartíma fullkomnaði hann svo þrennuna og niðurstaðan magnaður þriggja marka sigur.

Villa með fullt hús stiga

Aston Villa hélt sigurgöngu sinni áfram þegar liðið lagði Bologna að velli, 2:0, á Villa Park í Birmingham.

Villa er í efsta sæti deildarkeppninnar með fullt hús stiga, níu, en Bologna er mjög neðarlega án stiga.

Mörk Villa skoruðu John McGinn og Jhon Durán í síðari hálfleik.

Úrslit kvöldsins:

Real Madríd - Borussia Dortmund 5:2

Aston Villa – Bologna 2:0

Juventus – Stuttgart 0:1

Sturm Graz – Sporting Lissabon 0:2

Girona – Slovan Bratislava 2:0

París SG – PSV 1:1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert