Mónakó á toppinn – fyrsti sigur AC Milan

Tijjani Reijnders fagnar öðru marka sinna í Mílanó í kvöld.
Tijjani Reijnders fagnar öðru marka sinna í Mílanó í kvöld. AFP/Gabriel Bouys

Mónakó tyllti sér á toppinn í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla með öruggum sigri á Rauðu stjörnunni, 5:1, í þriðju umferð keppninnar í Mónakó í kvöld. Á sama tíma vann AC Milan sinn fyrsta sigur í keppninni.

Mónakó er nú með sjö stig í efsta sæti deildarkeppninnar en nánast öll þátttökulið deildarkeppninnar eiga leik til góða og því mun liðið ekki tróna lengi á toppnum. Rauða stjarnan er án stiga.

Takumi Minamino skoraði tvennu fyrir Mónakó auk þess sem Breel Embolo, Wilfried Singo og Magnes Akliouche komust allir á blað.

Cherif Ndiaye skoraði mark Rauðu stjörnunnar úr vítaspyrnu.

Hollendingurinn með tvennu

Í Mílanó hafði AC Milan betur gegn Club Brugge, 3:1.

Christian Pulisic skoraði beint úr hornspyrnu eftir 34 mínútna leik áður en Raphael Onyedika, leikmaður Club Brugge, fékk beint rautt spjald sex mínútum síðar.

Einum færri jafnaði Kyriani Sabbé metin fyrir Club Brugge snemma í síðari hálfleik.

Þá var röðin komin að Hollendingnum Tijjani Reijnders. Hann skoraði á 61. mínútu og aftur tíu mínútum síðar og tryggði þannig heimamönnum í AC Milan kærkominn sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert