Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Diego Forlán er orðinn atvinnumaður í tennis, þrátt fyrir að vera orðinn 45 ára.
Forlán var valinn besti leikmaður HM í fótbolta árið 2010 og lék með liðum á borð við Manchester United, Atlético Madríd og Inter Mílanó.
Hann lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2018 og reyndi fyrir sér í þjálfun með misjöfnum árangri. Hann lagði þjálfaratöfluna á hilluna árið 2021 og ákvað að hella sér í tennis.
Forlán er á leiðinni á sitt fyrsta atvinnumót í tennis en hann keppir í tvíliðaleik á Opna úrúgvæska mótinu ásamt Argentínumanninum Federico Coria.