Sárnaði myndir af öðru nafni á treyju sinni

Raphinha sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag.
Raphinha sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag. AFP/Josep Lago

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Raphinha, leikmaður Barcelona, viðurkennir að honum hafi sárnað þegar stuðningsmenn félagsins hafi byrjað að birta myndir af sér með treyju númer 11 en ekki hans nafni aftan á í sumar.

Stuðningsmenn Börsunga vildu ólmir að félagið semdi við Nico Williams, leikmann Athletic Bilbao og spænska landsliðsins, eftir frábæra frammistöðu hans á EM 2024 í Þýskalandi í sumar, þar sem Spánn stóð uppi sem sigurvegari.

Raphinha leikur í treyju númer 11 hjá Barcelona en Williams hélt hins vegar kyrru fyrir hjá Bilbao.

„Ég sá þessar færslur með treyjunni á Instagram. Mér fannst þetta vera ósmekklegur brandari og þetta var vanvirðing. Fólk verður að virða leikmennina sem eru hér.

Við erum hér að gera okkar allra besta fyrir félagið. Að sjá svona ljósmyndir var ekki mjög skemmtilegt fyrir mig, mér fannst þetta vera vanvirðing. Mér sárnaði svolítið á því augnabliki,“ sagði Raphinha á fréttamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert