Leggja fram kvörtun til UEFA

Antoine Griezmann, leikmaður Atlético Madríd, svekktur á meðan leikmenn Lille …
Antoine Griezmann, leikmaður Atlético Madríd, svekktur á meðan leikmenn Lille fagna marki Jonathans Davids í gærkvöldi. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Atlético Madríd hefur lagt fram formlega kvörtun til Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, vegna vítaspyrnu sem var dæmd á karlalið félagsins í 3:1 tapi fyrir Lille í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í Madríd í gærkvöldi.

Staðan var 1:1 þegar Lille fékk dæmda vítaspyrnu á 74. mínútu, sem Jonathan David skoraði úr.

Fannst Madrídingum sem Benjamin André hafi handleikið knöttinn áður en Koke felldi hann innan vítateigs.

„Þetta var ekki neitt. Útskýrið fyrir mér hvers vegna þetta var vítaspyrna. Ég vona satt að segja að við getum fundið eitthvað sem gæti rennt stoðum undir það að þetta sé víti svo við getum fundið innri ró,“ sagði Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético, á fréttamannafundi eftir leikinn í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka