Bjóst við meiru frá Greenwood

Mason Greenwood með boltann í leiknum í gærkvöldi.
Mason Greenwood með boltann í leiknum í gærkvöldi. AFP/Christophe Simon

Roberto De Zerbi, knattspyrnustjóri Marseille, var ekki ánægður með frammistöðu Masons Greenwoods í 0:3-tapi liðsins fyrir París SG í toppslag í frönsku 1. deildinni í gærkvöldi.

Á fréttamannafundi eftir leik var De Zerbi spurður hvers vegna hann hafi tekið Greenwood af velli í hálfleik þegar staðan var þegar orðin 3:0 fyrir PSG.

„Því ég kunni illa við hvernig hann spilaði. Ef við viljum berjast um titilinn verðum við að þrýsta á andstæðinginn í hverjum einasta leik.

Hann er góður strákur en ég bjóst við miklu meira frá honum í kvöld,“ sagði De Zerbi.

Franska dagblaðið L’Équipe var ekki síður óvægið í garð Greenwoods og gaf honum 1 í einkunn fyrir frammistöðu sína.

„De Zerbi beið þar til í hálfleik með að taka hann af velli en það var meira að segja of seint því skortur hans á þátttöku í leiknum jaðraði við að vera ósiðleg.

Þegar hann er ekki með boltann missir hann áhugann á öllu eins og í litla skokkinu hans fyrir fyrsta markið og sérstaklega skelfilegri sendingu hans í aðdraganda þriðja marksins. Þetta var fíaskó,“ skrifaði L’Équipe um frammistöðu Greenwoods.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert