Balotelli í stað Alberts Guðmundssonar

Mario Balotelli og Albert Guðmundsson.
Mario Balotelli og Albert Guðmundsson. Ljósmynd/Samsett

Ítalska knattspyrnufélagið Genoa hefur samið við ítalska sóknarmanninn Mario Balotelli um að leika með liðinu. Samdi Balotelli út tímabilið og kemur á frjálsri sölu.

Hvorki hefur gengið né rekið hjá Genoa hjá tímabilinu þar sem liðið er í 18. sæti, fallsæti, með aðeins sex stig eftir níu leiki og hefur aðeins skorað sjö mörk.

Balotelli, sem er 34 ára gamall, var síðast á mála hjá Adana Demirspor í Tyrklandi og er ætlað að hressa upp á sóknarleik Genoa sem hefur munað fífil sinn fegurri síðan liðið lánaði íslenska landsliðsmanninn Albert Guðmundsson til Fiorentina og seldi ítalska landsliðsmanninn Mateo Retetegui til Atalanta.

Saman mynduðu þeir afar öflugt sóknarpar á meðan Genoa hefur reynst erfitt að finna netmöskvana það sem af er tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka