Brasilískir fjölmiðlamenn eru verulega ósáttir við að Brasilíumaðurinn Vinícius Júnior, sóknarmaður Real Madríd, hafi ekki unnið til Gullboltans á verðlaunaafhendingu í París á mánudagskvöld.
Rodri, miðjumaður Englandsmeistara Manchester City og Evrópumeistara Spánar, hlaut Gullboltann í fyrsta sinn.
Nokkrir fjölmiðlamenn í Brasilíu hafa fullyrt að barátta Vinícius gegn kynþáttahatri hafi unnið gegn honum í kjörinu.
„Við vitum að Vinícius verður fyrir kynþáttaníði í spænskri knattspyrnu og annars staðar í Evrópu og að hann berst ötullega gegn kynþáttahatri.
Það vekur upp spurninguna hvort að niðurstaðan sem færði Rodri sigurinn hafi markast af fordómum og kynþáttafordómum í garð Vinícius,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir Guga Chacra hjá Globo News sjónvarpsstöðinni.
Annar fjölmiðlamaður, Gustavo Faldon, ritstjóri íþróttafrétta hjá dagblaðinu Estadao sparaði ekki stóru orðin:
„Meðferðin á Vinícius var mesta óréttlæti í sögu Gullboltans. Sú staðreynd að hann er brasilískur, spilar fyrir Real Madríd og er sóknarmaður ætti alltaf að hafa hjálpað honum ef tekið er mið af sögu Gullboltans.“
„Þetta hljómar eins og óréttlæti fyrir mér,“ sagði Rodrigo Bueno, lýsandi hjá ESPN Brasil.