Robin Zentner, markvörður þýska knattspyrnuliðsins Mainz, kennir Harry Kane, framherja Bayern München, um meiðslin sem hann varð fyrir í leik liðanna í þýska bikarnum í gærkvöldi.
Bayern vann leikinn í Mainz, 4:0, en Harry Kane lagði upp fyrstu tvö mörk liðsins, bæði fyrir Jamal Musiala.
Kane lenti síðan í árekstri við Zentner þegar hann reyndi að stökkva á boltann eftir fyrirgjöf Serge Gnabry.
Kane lenti á Zentner sem fékk skurð fyrir ofan hægri augabrúnina en gat haldið leik áfram.
„Þú getur kennt honum um þetta. Hann sér tiltölulega snemma að hann á ekki séns í boltann, þá gæti hann alveg eins sleppt því að ráðast á hann,“ sagði Zentner.