Jürgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool, kveðst þess fullviss að Sergio Ramos, sem þá lék með Real Madríd, hafi viljandi meitt Mohamed Salah í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 2018.
Real Madríd vann leikinn 3:1 en Ramos meiddi Salah illa á öxl í fyrri hálfleik þegar staðan var enn markalaus.
„Brotið á Salah, við vitum það öll að hann gerði þetta af mikilli ánægju. Ég hef aldrei skilið svona hugarfar. Ég var aldrei með svona leikmenn.
Ef ég var með svona leikmann sá ég til þess að við losuðum okkur við viðkomandi,“ sagði Klopp í samtali við Toni Kroos í hlaðvarpsþætti þess síðasta, Einfach mal Luppen.
Kroos var samherji Ramos um langt árabil hjá Real Madríd.