Ruud van Nistelrooy var kampakátur eftir stórsigur Manchester United gegn Leicester City, 5:2, í 16-liða úrslitum enska deildabikarsins á Old Trafford í gærkvöld. Var þetta fyrsti leikur van Nistelrooy sem bráðabirgðastjóri Man. United.
Liðið nýtti færin sín mun betur en í flestum leikjum sínum á tímabilinu og heimsækir Tottenham Hotspur í átta liða úrslitum.
„Við skoruðum glæsileg mörk. Fyrsta markið var stórglæsilegt hjá Casemiro. Ég verð einnig að viðurkenna að við vorum svolítið heppnir. Boltinn fer tvisvar í stöngina og berst svo til Casemiro, svo fer aukaspyrna Bruno af varnarmanni en þetta er fyrsta markið hans í langan tíma.
Við skoruðum fimm mörk en færin sem við fengum gegn West Ham og Fenerbahce voru miklu fleiri og betri en við gátum ekki klárað þau. Skyndilega var heppnin með okkur í liði og það sá til þess að þetta var frábært kvöld,“ sagði van Nistelrooy í samtali við Sky Sports eftir leikinn.