José Mourinho, knattspyrnustjóri Fenerbahce í Tyrklandi, var í essinu sínu eftir sigur liðsins á Trabzonspor í tyrknesku úrvalsdeildinni í gær.
Mourinho var vægast sagt ósáttur við dómara leiksins, þrátt fyrir 3:2-sigur. Hélt hann því fram eftir leik að sitt lið væri ekki aðeins að spila gegn öðrum liðum, heldur einnig kerfinu og dómurum.
„VAR-dómarinn var maður leiksins. Við sáum hann aldrei en hann var maður leiksins. Dómarinn var bara lítill strákur og VAR-dómarinn var hinn raunverulegi dómari. Við hjá Fenerbahce viljum ekki sjá hann aftur,“ sagði Mourinho við beIN Sports eftir leik.
„Það er nógu erfitt að spila við góð lið eins og Trabzonspor án þess að allt kerfið sé á móti okkur. Það er erfiðast af öllu að spila við kerfið. Í dag spiluðum við á móti góðu liði, á móti VAR og gegn kerfinu.
Það er mjög erfitt. Ég hefði ekki einu sinni komið hingað ef ég vissi að kerfið væri svona á móti okkur,“ bætti hann við.