Portúgalska liðið Sporting gerði sér lítið fyrir og skellti Englandsmeisturum Manchester City, 4:1, í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í Lissabon í kvöld.
Rúben Amorim var á hliðarlínunni hjá Sporting, en hann hefur samþykkt að taka við Manchester United og skiptir yfir á næstu dögum.
City byrjaði betur því Phil Foden skoraði fyrsta mark leiksins á 4. mínútu. Sænski framherjinn Viktor Gyökeres jafnaði á 38. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.
Maximiliano Araújo kom Sporting yfir á fyrstu mínútu seinni hálfleiks og Gyökeres gerði sitt annað mark og þriðja mark Sporting á 49. mínútu úr víti. Hann fullkomnaði síðan þrennuna á 80. mínútu úr öðru víti og innsiglaði 4:1-sigur Sporting.
Portúgalska liðið er í öðru sæti deildarinnar með tíu stig. Manchester City er í sjötta með sjö stig.
AC Milan gerði góða ferð til Madridar og sigraði Real Madríd, 3:1. Malick Thiaw kom Milan yfir á 12. mínútu, áður en Viní Juníor jafnaði á 23. mínútu úr víti. Álvaro Morata sá hins vegar um að staðan var 2:1 í hálfleik með öðru marki ítalska liðsins á 39. mínútu.
Tijjani Reijnders tryggði AC Milan svo tveggja marka sigur með þriðja marki liðsins á 73. mínútu og þar við sat. Liðin eru bæði með sex stig eftir fjóra leiki í 17. og 18. sæti.
Hákon Arnar Haraldsson lék ekki með Lille vegna meiðsla er liðið gerði jafntefli á heimavelli, 1:1, gegn Juventus. Lille er í 12. sæti með sjö stig og Juventus í 10. sæti með sjö.
Önnur úrslit:
Bologna 0:1 Mónakó
Celtic 3:1 Leipzig
Dortmund 1:0 Sturm Graz