Barcelona skoraði fimm – dramatík í París

Robert Lewandowski skoraði tvö.
Robert Lewandowski skoraði tvö. AFP/Andrej Isakovic

Barcelona vann sinn þriðja sigur í fjórða leiknum í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld er liðið gerði góða ferð til Belgrad og sigraði Rauðu stjörnuna, 5:2.

Inigo Martínez kom Barcelona yfir á 13. mínútu en 14 mínútum síðar jafnaði Silas Mvumpa. Robert Lewandowski sá hins vegar um að Barcelona færi með forskot, 2:1, í hálfleik með marki á 43. mínútu.

Pólski framherjinn var aftur á ferðinni á 53. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar bætti Raphinha við fjórða markinu. Fermín López gerði fimmta markið á 76. mínútu, áður en Milson minnkaði muninn á 84. mínútu.

Barcelona er í sjötta sæti deildarinnar með níu stig. Rauða stjarnan er eitt fimm liða sem er án stiga.

Ángel Correa fagnar dramatísku sigurmarki sínu.
Ángel Correa fagnar dramatísku sigurmarki sínu. AFP/Franck Fife

Atlético Madríd vann dramatískan útisigur á París SG, 2:1. Warren Zaïre-Emery kom PSG yfir á 14. mínútu en Nahuel Molina jafnaði aðeins fjórum mínútum síðar.

Var staðan 1:1 allt fram að þriðju mínútu uppbótartímans er varamaðurinn Ángel Correa tryggði spænska liðinu sigur.

Atalanta gerði góða ferð til Þýskalands.
Atalanta gerði góða ferð til Þýskalands. AFP/Thomas Kienzle

Ítalska liðið Atalanta gerði góða ferð til Þýskalands og sigraði Stuttgart, 2:0. Ademola Lookman og Nicoló Zaniolo gerðu mörk Atalanta.

Önnur úrslit:

Feyenoord 1:3 Salzburg
Inter Mílanó 1:0 Arsenal
Sparta Prag 1:2 Brest

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert