Xabi Alonso, knattspyrnustjóri Bayer Leverkusen, kveðst hafa reynt að undirbúa leikmenn sína fyrir andrúmsloftið sem myndast á Evrópukvöldum á Anfield í Liverpool. Liverpool vann stórsigur, 4:0, í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.
„Við getum útskýrt ýmislegt en það er ekki hægt að hemja andrúmsloftið sem skapast hér. Ég veit að leikmenn Liverpool finna fyrir því.
Þeir finna fyrir aukinni orku og hugsa með sér að áhorfendur styðji við bakið á þeim og að nú sé tímabært að láta til skarar skríða,“ sagði Alonso á fréttamannafundi eftir leikinn.
Hann lék með Liverpool frá 2004 til 2009 og fór þá ekki varhluta af eftirminnilegum Evrópukvöldum. Alonso vann til að mynda Meistaradeildina með Liverpool árið 2005 og tapaði í úrslitaleik keppninnar tveimur árum síðar.
„Það er ekki auðvelt að verjast á þessum augnablikum. Við reyndum að búa okkur undir þetta fyrir leikinn og vorum reiðubúnir en þegar á hólminn er komið er það erfitt.
Það er miklu erfiðara að stjórna þessu á vellinum en að koma því í orð,“ bætti Spánverjinn við.