Nokkrir leikmenn knattspyrnufélagsins Colo Colo frá Síle, þeirra á meðal Arturo Vidal, sæta nú rannsókn grunaðir um aðild að kynferðisbroti í höfuðborginni Santiago.
Saksóknaraembættið í Santiago greinir frá því að meint brot hafi átt sér stað á bar í Vitacura-hverfinu í borginni. Kona segir að leikmenn Colo Colo hafi byrlað systur sinni ólyfjan og brotið kynferðislega á henni á staðnum.
Vidal, sem lék meðal annars með Juventus, Bayern München og Barcelona, var færður á lögreglustöð í Vitacura-hverfinu þar sem honum var sleppt að lokinni könnun á persónuskilríkjum.
Samkvæmt lögreglu í Santiago voru aðrir leikmenn liðsins látnir fylgja slíku stöðluðu verklagi lögreglunnar í Síle og báru vitni um atvikið.
Fyrrverandi knattspyrnumanninum Jorge Valdivia var þá sleppt úr haldi á mánudag eftir að hann var handtekinn þann 22. október, sakaður um að hafa nauðgað konu tveimur dögum fyrr.
Er um aðskilið mál frá því sem greint er frá að ofan að ræða.
Valdivia, sem er 41 árs, lék á sínum tíma 78 A-landsleiki fyrir Síle og lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum. Hann neitaði sök.