Brassinn reif vöðva

Neymar í leik með Al Hilal.
Neymar í leik með Al Hilal. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar varð fyrir því óláni að rífa vöðva aftan í læri í aðeins öðrum leik sínum fyrir Al Hilal frá Sádi-Arabíu síðan hann sneri til baka rúmu ári eftir alvarleg hnémeiðsli.

Neymar kom inn á sem varamaður í leik liðsins gegn Esteghlal frá Íran í Meistaradeild Asíu á mánudag en þurfti að fara meiddur af velli síðar í sama leik. Virtist honum mikið niðri fyrir og fleygði legghlífum og takkaskóm í grasið eftir að hann fór aftur af velli.

Á samfélagsmiðlum reyndi Neymar að gera lítið úr atvikinu og skrifaði að vísast væri einungis um óvenju sársaukafullan krampa að ræða.

Al Hilal tilkynnti hins vegar í gær að hann hafi rifið vöðva og megi vænta þess að vera frá keppni næstu fjórar til sex vikurnar vegna meiðslanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert