„Stærstu mistök sem ég hef séð“

Unai Emery og Tyrone Mings.
Unai Emery og Tyrone Mings. Ljósmynd/Samsett

Unai Emery, knattspyrnustjóri Aston Villa, trúði ekki eigin augum þegar varnarmaðurinn Tyrone Mings handlék knöttinn innan vítateigs, sem leiddi til sigurmarks Club Brugge í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í Belgíu í gærkvöldi.

„Þetta eru stærstu mistök sem ég hef nokkurn tímann séð á ferli mínum,“ sagði Emery á fréttamannafundi eftir leik.

Mistökin sneru að því að Emiliano Martínez, markvörður Villa, gaf stutta sendingu á Mings inni í markteig liðsins, enski varnarmaðurinn virtist alls ekki með á nótunum og tók boltann upp með höndunum.

Stórfurðuleg mistök

Dómari leiksins sá sér því engan annan kost í stöðunni en að dæma vítaspyrnu, sem Hans Vanaken skoraði sigurmarkið úr.

„Við lékum vel í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik breyttu mistökin öllu. Lykilatriðið var mistökin sem við gerðum.

Þessi mistök hans eru stórfurðuleg. Þetta hefur aðeins gerst einu sinni á allri ævi minni,“ bætti Emery við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert