Þýska knattspyrnusambandið gerði sig sekt um neyðarleg mistök þegar landsliðshópur karla var tilkynntur fyrir komandi landsleikjaglugga sem fer í hönd um miðjan mánuðinn.
Á heimasíðu sambandsins var að finna leikmannahópinn en eitt nafn stakk í stúf: Dario Sits. Sá leikur með Helmond Sport í hollensku B-deildinni að láni frá Parma á Ítalíu.
Nógu óvænt hefði það verið að tvítugur sóknarmaður sem spilar í næstefstu deild í Hollandi kæmist í ógnarsterkan þýskan landsliðshóp en það sem meira er, hann er ekki frá Þýskalandi.
Eftir því sem næst verður komist á Sits engar ættir að rekja þangað og er auk þess landsliðsmaður annarrar þjóðar, Lettlands, þar sem hann fæddist og ólst upp. Hefur Sits leikið tvo A-landsleiki og skorað eitt mark og er í landsliðshópnum fyrir verkefni Letta í næsta landsleikjaglugga.
Starfsmenn þýska sambandsins voru fljótir að leiðrétta villuna og strikuðu nafn Sits út. Samkvæmt AP-fréttaveitunni bar sambandið við tæknilegum örðugleikum: villu í leikmannagagnagrunni þess.