Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir endaði næstmarkahæst í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Lokaumferðin fór fram í dag en lið hennar Kristianstad vann útisigur á Trelleborg, 5:0. Hlín skoraði alls 15 mörk í deildinni, jafnmikið og Cathinka Tandberg leikmaður Hammarby.
Markahæst var síðan Momoko Tanikawa leikmaður Rosengård.
Hlín skoraði síðustu tvö mörk Kristiandstad í leiknum en Katla Tryggvadóttir hafði þá lagt tvö mörk upp. Guðný Árnadóttir lék allan leikinn fyrir Kristiandstad, líkt og hinar tvær.
Kristianstad endar í fjórða sæti sænsku deildarinnar með 52 stig.
Guðrún Arnardóttir lék að vanda allan leikinn fyrir Rosengård í útisigri Svíþjóðarmeistaranna á Djurgården, 3:0, í dag.
Rosengård vann 25 af 26 leikjum sínum í deildinni og endaði með langflest stig eða 75, og fékk aðeins níu mörk á síg á tímabilinu.
Hin 17 ára gamla Sigdís Eva Bárðardóttir lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik í deildinni og skoraði í tapi Norrköping fyrir AIK, 3:2, í Norrköping.
Mark Sigdísar kom á 21. mínútu en hún fór af velli á 59. mínútu.
Norrköping hafnaði í fimmta sæti með 38 stig.
María Catharina Ólafsdóttir Gros lagði upp fyrsta mark Linköping í sigri á Vittsjö, 3:2.
María lék allan leikinn en Linköping hafnaði í níunda sæti deildarinnar með 29 stig.
Växjö vann útisigur á Örebro, 2:1, í Íslendingaslag.
Bryndís Arna Níelsdóttir spilaði fyrri hálfleikinn fyrir Växjö en miðjumaðurinn Þórdís Elva Ágústsdóttir kom inn á 74. mínútu.
Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir og Katla María Þórðardóttir komu báðar inn á hjá Örebro þegar leið á seinni hálfleik.
Växjö endar í áttunda sæti með 30 stig en Örebro féll.