Bayern München hafði betur gegn Vålerenga, 3:0, í Íslendingaslag í 3. umferð C-riðils Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í München í kvöld.
Bayern er eftir sigurinn í toppsætinu með fullt hús stiga, níu, en Vålerenga er á botninum án stiga.
Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði Bæjara og íslenska landsliðsins var á sínum stað í vörn Þýskalandsmeistaranna og lék allan leikinn.
Landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir lék fyrstu 79 mínúturnar fyrir Vålerenga.
Pernille Harder, Giulia Gwinn og Sarah Zadrazil skoruðu mörk Bayern í leiknum.
Í D-riðli vann Manchester City lið Hammarby 2:0 í Manchester.
Man. City er sömuleiðis með níu stig á toppnum en Hammarby er í þriðja sæti með þrjú.
Laura Blindkilde braut ísinn fyrir Man. City í upphafi síðari hálfleiks áður en Aoba Fujino innsiglaði sigurinn tíu mínútum fyrir leikslok.