Landsliðsmaður dæmdur fyrir kynferðisbrot

Wissam Ben Yedder var fyrirliði Mónakó á síðasta tímabili.
Wissam Ben Yedder var fyrirliði Mónakó á síðasta tímabili. AFP/Clément Mahoudeau

Franski knattspyrnumaðurinn Wissam Ben Yedder hefur verið dæmdur sekur um kynferðisbrot gegn konu í heimalandi sínu.

Ben Yedder, sem er 34 ára, var fundinn sekur í öllum ákæruliðum, sem innihélt meðal annars ölvunarakstur.

Hann fékk tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm, missir ökuleyfið í sex mánuði og þarf að greiða þolanda 5.000 evrur, um 740.000 íslenskar krónur, í miskabætur.

Konan kærði Ben Yedder fyrir kynferðisbrot í september síðastliðnum en það er ekki eina dómsmálið sem sóknarmaðurinn stendur frammi fyrir.

Fleiri dómsmál á dagskrá

Ben Yedder sætir meðal annars rannsókn fyrir að hafa greitt konu sem sakaði hann um nauðgun sumarið 2023 upphæð sem nemur 900.000 evrum, 133 milljónum íslenskra króna.

Þá mætir Ben Yedder fyrir rétt í desember næstkomandi þar sem hann er ákærður fyrir andlegt ofbeldi í garð eiginkonu sinnar í tengslum við skilnaðardeilu þeirra hjóna.

Ben Yedder lék síðast fyrir Mónakó í frönsku 1. deildinni en er sem stendur án félags. Ben Yedder á að baki 19 A-landsleiki fyrir Frakkland þar sem hann skoraði þrjú mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert