Ósáttir við fangelsisdóm forsetans

Faruk Koca kýlir Halil Umut Meler dómara.
Faruk Koca kýlir Halil Umut Meler dómara. Ljósmynd/RTE

Tyrkneska knattspyrnufélagið Ankaragücü kemur fyrrverandi forseta félagsins Faruk Koca til varnar í yfirlýsingu eftir að Koca var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að ráðast á dómara.

Koca hljóp inn á völlinn og kýldi Halil Umut Meler eftir 1:1-jafntefli Ankaragücü gegn Rizespor í tyrknesku úrvalsdeildinni í desember síðastliðnum.

„Það er ómögulegt að túlka dóminn þannig að hann markist af góðum ásetningi. Það var enginn hneykslanlegur glæpur framinn.

Dómstóllinn hefur litast af hlutdrægu almenningsáliti,“ sagði Ismail Mert Firat, forseti Ankaragücü í yfirlýsingu.

Þar sagði hann Koca hafa unnið gott starf fyrir tyrkneska knattspyrnu og að hann væri goðsögn hjá félaginu.

Dómurinn væri þá ekki í samhengi við að Koca hafi sagt starfi sínu lausu og beðist opinberlega afsökunar á árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka