Daníel Guðjohnsen: Ég get náð langt

Daníel Tristan Guðjohnsen
Daníel Tristan Guðjohnsen Ljósmynd/mff.se

Knattspyrnumaðurinn ungi Daníel Tristan Guðjohnsen vill ólmur sanna sig hjá Svíþjóðarmeisturum Malmö en hann kom til félagsins frá Real Madrid á síðasta ári. Daníel hefur einnig verið hjá unglingaliðum Barcelona.

Þrátt fyrir að hafa lítið sem ekkert spilað með Malmö vegna meiðsla er Daníel bjartsýnn fyrir framtíðina.

„Ég ætla að berjast fyrir sæti mínu hér. Framtíðin er björt og það er aðeins tímaspursmál hvenær ég get sýnt mitt rétta andlit,“ sagði Daníel við Expressen.

Daníel er átján ára gamall og er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen og Ragnhildar Sveinsdóttur.

Hann kom inn í hópinn hjá Malmö í haust eftir að hafa jafnað sig af meiðslunum og náði að spila einn leik með liðinu í úrvalsdeildinni, ásamt því að hann hefur verið í leikmannahópnum í öllum Evrópuleikjunum að undanförnu.

Daníel er í U19 ára landsliðinu sem leikur í dag gegn Aserbaídsjan í undankeppni EM í Moldóvu en leikurinn hefst klukkan 10 og Daníel er í framlínu íslenska liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka