Landsliðsmaðurinn Dagur Dan Þórhallsson kann afar vel við sig í Flórída þar sem hann leikur með Orlando FC í bandarísku atvinnumannadeildinni í fótbolta. Þar hefur hann spilað mjög vel að undanförnu og er liðið komið í undanúrslit Austurdeildarinnar í baráttunni um bandaríska meistaratitilinn.
„Lífið er hrikalega gott í Flórída. Maður vaknar á morgnana og sér sólina úti og lífið verður betra, sérstaklega borið saman við skammdegið á Íslandi, sem getur verið ógeðslegt.
Það er vissulega mjög rakt þarna og sérstaklega á sumrin. Við reynum að æfa klukkan 8 á morgnana á sumrin til að vera lausir við mesta hitann og rakann,“ sagði Dagur í samtali við Morgunblaðið á hóteli landsliðsins í Alicante á Spáni þar sem liðið undirbýr sig fyrir leikinn við Svartfjallaland í Þjóðadeildinni á laugardag. Eftir það er leikur við Wales á þriðjudag.
Dagur og félagar tryggðu sér sæti í undanúrslitum Austurdeildarinnar með sigri á Charlotte í vítakeppni í oddaleik eftir að liðin höfðu unnið sinn leikinn hvort. Orlando jafnaði á tólftu mínútu uppbótartímans í oddaleiknum og tryggði sér vítakeppni.
„Það var geðveikt og öðruvísi en maður er vanur. Við fórum líka í þessa úrslitakeppni í fyrra, unnum tvo leiki og fórum beint áfram. Núna fór þetta í þrjá leiki. Við unnum fyrsta leikinn 2:0 og gerðum síðan jafntefli í öðrum leik og töpuðum í vítakeppni.
Í þriðja leiknum jöfnuðum við á tólftu mínútu uppbótartímans. Það var mesta rússíbanareið sem ég hef upplifað. Á 90. mínútu ætlaði ég ekki að trúa því að þetta væri búið. Ég var búinn að ákveða það í hjartanu að við værum að fara að vinna deildina. Svo allt í einu fáum við vítið, hann klúðrar því en skorar úr frákastinu. Þetta var rugl,“ sagði Dagur.
Nánar er rætt við Dag í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.