Óhætt er að segja að hlutskipti landsliðskvennanna Sveindísar Jane Jónsdóttur og Amöndu Andradóttur hafi verið ólíkt þegar þær léku með félagsliðum sínum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi.
Sveindís Jane lék fyrstu 56 mínúturnar fyrir Wolfsburg þegar liðið vann stórsigur á Galatasaray, 5:0, í A-riðlinum í Istanbúl í Tyrklandi.
Var þetta fyrsti sigur Wolfsburg í riðlinum, sem er í þriðja sæti með þrjú stig. Lyon er í efsta sæti riðilsins með níu stig eftir 3:0-sigur á Roma í gærkvöldi. Roma er í öðru sæti með sex stig.
Amanda og liðsfélagar hennar í Twente heimsóttu Real Madríd í B-riðli og steinlágu 7:0.
Hún lék fyrstu 83 mínúturnar fyrir Hollandsmeistara Twente, sem er í þriðja sæti riðilsins með þrjú stig.
Chelsea er á toppnum með níu stig eftir 2:1-sigur á botnliði Celtic í gærkvöldi og Real Madríd er í öðru sæti með sex stig.