Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur komið á fót rannsókn vegna myndskeiðs sem enska götublaðið The Sun birti á miðlum sínum í gær. Þar virðist sjást til enska dómarans Davids Cootes, sniffa hvítt duft sem talið er að sé kókaín.
UEFA hafði þegar sett Coote í bann vegna annars myndskeiðs sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum á mánudag þar sem má sjá hann úthúða Liverpool og fyrrverandi knattspyrnustjóra karlaliðsins, Jürgen Klopp.
Coote starfaði við dómgæslu á vegum UEFA á EM 2024 í Þýskalandi í sumar og samkvæmt The Sun var síðara myndskeiðið af honum tekið upp þann 6. júlí, degi eftir að hann var aðstoðar VAR-dómari í leik Spánar og Þýskalands í átta liða úrslitum mótsins.