Evrópumeistarar Spánar tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum Þjóðadeildar karla í knattspyrnu með sigri gegn Danmörku í 4. riðli A-deildar keppninnar í Kaupmannahöfn í kvöld.
Leiknum lauk með 2:1-sigri Spánverja þar sem þeir Mikel Oyarzabal og Ayoze Pérez skoruðu mörk Spánverja áður en Gustav Isaksen minnkaði muninn fyrir Danmörku á 84. mínútu.
Í hinum leik riðilsins gerðu Sviss og Serbía jafntefli, 1:1, í Zürich þar sem Zeki Amdouni kom Sviss yfir á 78. mínútu áður en Aleksa Terzic jafnaði metin fyrir Serbíu á 88. mínútu.
Spánn er með 13 stig í efsta sætinu og öruggt um sæti í 8-liða úrslitunum sem verða leikin í mars. Danmörk er í öðru sætinu með 7 stig og dugar jafntefli gegn Serbíu í Leskovac á mánudaginn til þess að tryggja sér annað sætið og sæti í 8-liða úrslitunum.
Serbar eru með 5 stig í þriðja sætinu og Sviss er í neðsta sætinu með 2 stig og er fallið í B-deild.