Gengur ekkert hjá Börsungnum

Ansu Fati í leik með Barcelona í síðasta mánuði.
Ansu Fati í leik með Barcelona í síðasta mánuði. AFP/Josep Lago

Spænski knattspyrnumaðurinn Ansu Fati, sóknarmaður Barcelona, á ekki sjö dagana sæla þar sem hann er einu sinni enn kominn á meiðslalistann.

Fati, sem er 22 ára, hefur lítið spilað með Barcelona á tímabilinu og mun ekki gera það næsta mánuðinn  þar sem hann meiddist aftan á læri á æfingu á miðvikudag.

Í tilkynningu frá félaginu sagði að Fati mætti vænta þess að vera frá vegna meiðslanna næstu fjórar vikur.

Hann missti af upphafi tímabilsins vegna meiðsla á fæti og hefur glímt við þrálát meiðsli allt frá því að Fati meiddist alvarlega á hné tímabilið 2020-21, sem varð til þess að hann missti af megninu af því.

Fati var þá einn efnilegasti leikmaður heims enda orðinn lykilmaður hjá Börsungum aðeins 18 ára gamall en fjarað hefur undan hjá kantmanninum knáa á undanförnum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert