Franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba hefur yfirgefið herbúðir ítalska stórliðsins Juventus en félagið rifti samningi sínum við leikmanninn í dag.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Pogba, sem er 31 árs gamall, gekk til liðs við félagið á nýjan leik sumarið 2022 á frjálsri sölu eftir sex ár í herbúðum Manchester United.
Miðjumaðurinn náði aldrei að stimpla sig almennilega inn hjá félaginu á þessum tveimur árum, meðal annars vegna meiðsla, og þá var hann úrskurðaður í fjögurra ára keppnisband af ítalska lyfjaeftirlitinu í febrúar á þessu ári vegna lyfjaneyslu.
Upphaflega var hann úrskurðaður í bráðabirgðarbann í september á síðasta ári en Alþjóðaíþróttadómstóllinn, CAS, stytti bann Pogba úr fjárum árum í 18 mánuði í október.
Pogba er því frjálst að byrja að spila fótbolta á nýjan leik í mars á næsta ári en hann hefur meðal annars verið orðaður við félög í Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu.