Arsenal hafði betur gegn Tottenham, 3:0, í Lundúnaslagnum í ensku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag og Dagný Brynjarsdóttir og stöllur í West Ham máttu þola svekkjandi tap gegn Brighton, 3:2.
Það tók Alessio Russo aðeins 63 sekúndur til þess að koma Arsenal yfir og Frida Maanum kom Arsenal í 2:0 á 22. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.
Stina Blackstenius skoraði svo þriðja mark liðsins á 66. mínútu og Arsenal er nú með 15 stig í fjórða sæti deildarinnar.
Brighton komst 2:0 yfir gegn West Ham en Katrina Gorry minnkaði muninn á 64. mínútu og jafnaði metin fimm mínútum síðar. Fran Kirby skoraði svo sigurmark Brighton á 82. mínútu.
Hin hálfíslenska María Þórisdóttir meiddist í síðasta leik Brighton gegn Arsenal og gat því ekki spilað í dag.
West Ham er í níunda sæti með fimm stig eftir átta leiki og Brighton er með 16 í þriðja sæti.