Allt hrundi hjá lærisveinum Heimis eftir rautt spjald

Enska landsliðið vann riðilinn.
Enska landsliðið vann riðilinn. AFP/Adrian Dennis

Lærisveinar Heimis Hallgrímssonar í írska landsliðinu máttu þola stórt tap gegn Englandi, 5:0, í þjóðadeild karla í knattspyrnu á Wembley á Englandi í dag.

England vann riðilinn með 15 stigum, jafn mörgum og Grikkland en með betri markatölu, og tryggði sér sæti í A-deild. Írland endaði í þriðja sæti og Finnland endaði án stiga í fjórða og síðasta sæti.

Markalaust var í hálfleik og írska liðið lokaði vel á það enska en hvorugt liðið náði skoti á markið.

Á 51. mínútu fékk Liams Scales hans annað gula spjald og þar með rautt eftir að hann braut á Jude Bellingham inni í teig og England fékk víti. 

Liam Scales að brjóta á Jude Bellingham.
Liam Scales að brjóta á Jude Bellingham. AFP/Adrian Dennis

Harry Kane, fyrirliði Englands, steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi og eftir það kom markaflóð.

Anthony Gordon skoraði annað mark Englands tveimur mínútum síðar eftir klaufaleg mistök í vörn Íra og þremur mínútum seinna skoraði Conor Gallagher þriðja mark Englands úr hornspyrnu.

Jarod Bowen kom inn á af varamannabekknum á 75. mínútu og með fyrstu snertingu sinni í leiknum skoraði hann fjórða mark Englands

Jarrod Bowen að fagna markinu með Curtis Jones.
Jarrod Bowen að fagna markinu með Curtis Jones. AFP/Adrian Dennis

Í hans fyrsta leik fyrir aðalliðið skoraði Taylor Harwood-Bellis fimmta og síðasta mark Englands í leiknum og England sigraði leikinn 5:0 í síðasta leik Lee Carsley sem þjálfara liðsins.

Þeir Anthony Gordon, Conor Gallagher, Jarrod Bowen, og Taylor Harwood-Bellis voru allir að skora sitt fyrsta mark fyrir enska landsliðið.

Taylor Harwood-Bellis að skora fimmta mark Englands í kvöld.
Taylor Harwood-Bellis að skora fimmta mark Englands í kvöld. AFP/Adrian Dennis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert