Heimir Hallgrímsson og lærisveinar hans í írska landsliðinu mæta Englandi í dag í Þjóðadeild karla í knattspyrnu.
„Ég held að ég sé betur undirbúinn núna þar sem ég þekki leikmennina betur en ég gerði í september,“ sagði Heimir sem tók við írska liðinu í sumar.
„Við höfum haft landsleikjahlé í september, október og nóvember. Ég var heppinn með að það hefur verið stutt á milli landsleikjahléa og ég hef náð að nota sömu leikmenn á milli, þannig ég er öruggari með hvernig við ætlum að spila gegn Englandi,“ sagði Heimir.
Það er mikið um meiðsli í enska landsliðshópnum fyrir leikinn í dag. Heimi finnst það breyta litlu fyrir leikinn.
„Ég held að dýpt enska landsliðsins sé svo mikil að það hefur ekki mikil áhrif. Þeir hafa svo marga leikmenn með mikil einstaklingsgæði, spilandi í bestu deildum heims. Á móti kemur vantar líklega tíu leikmenn í hópinn okkar,“ sagði Heimir.