Maria Luisa Grohs, markvörður Bayern München og samherji Glódísar Perlu Viggósdóttur, hefur greinst með krabbamein.
Grohs, sem er 23 ára gömul, greindist með illkynja æxli. Hún má ekki spila á næstunni en þrátt fyrir það hefur Bayern framlengt samning hennar til að styðja við bakið á henni.
„Sjúkdómurinn er áskorun sem ég bjóst ekki við að þurfa að yfirstíga,“ sagði Grohs í viðtali.
„Ég er í bestu mögulegum höndum hjá læknunum í München og ég er með stuðning frá stelpunum og félaginu,“ sagði Grohs.
Grohs gekk í raðir Bayern árið 2019 frá Bochum. Hún hefur verið aðalmarkvörður liðsins síðustu þrjú tímabil og hefur þrisvar orðið þýskur meistari með félaginu.