Króatía og Danmörk tryggðu sér í kvöld annað sætið í riðlum sínum í A-deild Þjóðadeildar karla í knattspyrnu og þar með sæti í átta liða úrslitum keppninnar.
Króatía fékk Portúgal í heimsókn í 1. riðli og gerðu liðin jafntefli, 1:1. Portúgal var þegar búið að vinna riðilinn og endar með 14 stig.
Króatía endar með átta stig, einu stigi meira en Skotland, sem hafnar í þriðja sæti og fer í umspil um að halda sæti sínu í A-deild. Pólland er fallið niður í B-deild eftir að hafa aðeins unnið sér inn fjögur stig.
Í leik Króatíu og Portúgal kom Joao Félix gestunum í forystu eftir rúmlega hálftíma leik áður en Josko Gvardiol jafnaði metin fyrir heimamenn á 65. mínútu.
Skotland gerði góða ferð til Póllands og hafði betur, 2:1.
John McGinn kom Skotum yfir snemma leiks en Kamil Piatkowski jafnaði metin eftir tæplega klukkutíma leik.
Fyrirliðinn Andy Robertson tryggði Skotum svo sigurinn með laglegu skallamarki á þriðju mínútu uppbótartíma.
Í 4. riðli nægði Danmörku markalaust jafntefli á útivelli gegn Serbíu til þess að ljúka leik með átta stig.
Serbía hafnaði í þriðja sæti með sex stig og fer í umspil um að halda sæti sínu í A-deild en Sviss er fallið niður í B-deild eftir að hafa tapað fyrir toppliði Spánar í kvöld. Vann Sviss sér aðeins inn tvö stig.
Leikur Spánar og Sviss fór fram á Tenerife og lauk með 3:2-sigri heimamanna.
Yeremi Pino, Bryan Gil og Bryan Zaragoza skoruðu mörk Spánverja. Mark Zaragoza kom á þriðju mínútu uppbótartíma úr vítaspyrnu.
Mörk Sviss skoruðu Joel Monteiro og Andi Zeqiri.
Þar með er ljóst hvaða lið taka þátt í átta liða úrslitum A-deildar Þjóðadeildarinnar. Þau eru Portúgal, Króatía, Frakkland, Ítalía, Þýskaland, Holland, Spánn og Danmörk.