San Marínó gerði sér lítið fyrir og vann aðeins sinn annan keppnissigur í sögunni þegar liðið heimsótti Liechtenstein til Vaduz og vann 3:1 í lokaumferð 1. riðils D-deildar Þjóðadeildar karla í knattspyrnu. Með sigrinum tryggði San Marínó sér sæti í C-deild.
Fyrr á árinu hafði fyrsti sigurinn í keppnisleik komið. Hann fór 1:0 og kom einnig gegn Liechtenstein. Sigurinn í kvöld tryggði San Marínó sigur í 1. riðli D-deildar sem þýðir að smáþjóðin er búin að vinna sér sæti í C-deild Þjóðadeildarinnar í fyrsta sinn.
Í kvöld náði Liechtenstein forystunni á 40. mínútu þegar Aron Sele skoraði.
Strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Lorenzo Lazzari metin fyrir San Marínó og Nicola Nanni sneri svo taflinu við með marki úr vítaspyrnu á 66. mínútu.
Alessandro Golinucci innsiglaði svo sigur gestanna með þriðja markinu tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok.
Áður hafði San Marínó unnið einn vináttulandsleik, líka gegn Liechtenstein, fyrir 20 árum, þannig að allir þrír sigurleikirnir hafa komið gegn sömu þjóðinni. Sigurinn í kvöld var líka fyrsti útsigur San Marínó í sögunni.