Hlín Eiríksdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, veltir fyrir sér möguleikanum á að fara í sterkari deild eftir frábært tímabil með Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún var í hópi bestu framherja úrvalsdeildarinnar.
Hlín endaði í þriðja sæti markalista deildarinnar með 15 mörk og hefur þar með skorað 36 mörk á þremur tímabilum í deildinni, einu með Piteå og tveimur með Kristianstad, og hún var tilnefnd í kosningu á besta sóknarmanni deildarinnar í ár.
Samningur hennar er útrunninn og Hlín staðfesti við Fotbollskanalen í dag að hún væri í viðræðum við félagið um nýjan samning. Það væri þó ekki víst að hún yrði áfram.
„Ég er dálítið spennt fyrir því að reyna fyrir mér annars staðar og þess vegna hef ég ekki ennþá skrifað undir samning. Ég er að velta þessu fyrir mér og þarf að taka ákvörðun fljótlega,
Mér líður mjög vel hérna í Kristianstad, ég er innan þægindarammans hvað varðar liðið og lífið utan vallar. Hér er fullt af Íslendingum þannig að ég er eins og heima hjá mér," sagði Hlín.
„Ég er í viðræðum við Kristianstad. Það er alveg ljóst að ég mun einhvern tíma taka næsta skref á ferlinum en þetta er spurning um rétta tímasetingu. Það er engin pressa á mér að yfirgefa Kristianstad þar sem mér líður mjög vel hérna og finnst ég vera stöðugt að bæta mig. Þjálfararnir hafa hjálpað mér gríðarlega mikið og það er ekki auðvelt að taka ákvörðun um að fara héðan," sagði Hlín Eiríksdóttir.