Spænski knattspyrnumaðurinn Juan Mata hefur keypt hlut í bandaríska félaginu San Diego FC, nýju félagi sem teflir fram liði í efstu deild í Bandaríkjunum í fyrsta sinn á næsta tímabili.
Mata, sem er 36 ára, er enn að spila og gerir það um þessar mundir með Western Sydney Wanderers í áströlsku A-deildinni.
Hann virðist farinn að huga að næstu skrefum eftir að ferlinum lýkur og segir í tilkynningu frá San Diego FC að Mata sé fyrsti erlendi knattspyrnumaðurinn sem eignast hlut í félagi í bandarísku deildinni á meðan hann er enn að spila.
„Að koma til San Diego sem hluthafi er spennandi tækifæri til þess að hjálpa til við að byggja upp eitthvað sérstakt í borg og deild sem er að ganga í gegnum gífurlegan vöxt,“ sagði Mata við tilefnið.
Félagið verður það þrítugasta sem teflir fram liði í bandarísku MLS-deildinni.