Spænski knattspyrnustjórinn Xavi er ekki að taka við stjórnartaumunum hjá Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni.
Það er spænski miðillinn Marca sem greinir frá þessu en í morgun bárust fréttir af þvíu að Gerardo Martino væri óvænt að hætta með liðið.
Xavi þekkir stórstjörnur liðsins vel en hann spilaði með þeim Lionel Messi, Sergio Busquets, Jordi Alba og Luis Suárez hjá Barcelona á sínum tíma.
Hann tók sér frí frá þjálfun eftir að hann lét af störfum sem stjóri Barcelona í sumar og í frétt Marca kemur fram að hann hafi ekki áhuga á því að snúa aftur í þjálfun á þessum tímapunkti.
Inter Miami varð deildameistari í Bandaríkjunum á tímabilinu en féll úr leik í 1. umferð útsláttakeppninnar eftir tap gegn Atlanta.