Knattspyrnumaðurinn Róbert Orri Þorkelsson er á förum frá kanadíska félaginu CF Montréal eftir að hafa verið á mála þar frá árinu 2021.
Róbert lék aðeins 21 leik með liðinu í bandarísku MLS-deildinni en hann missti mikið úr vegna meiðsla og hefur síðan verið í láni allt þetta ár með Kongsvinger í Noregi þar sem hann er þessa dagana í umspili með liðinu um sæti í norsku úrvalsdeildinni.
Róbert er 22 ára gamall varnarmaður sem hefur verið fyrirliði 21-árs landsliðsins en hann lék með Aftureldingu og Breiðabliki áður en hann fór til Kanada. Þá á hann fjóra A-landsleiki að baki og lék 17 leiki með 21-árs landsliðinu, þann síðasta gegn Wales í september.
Hann er einn af 12 leikmönnum sem CF Montréal kvaddi formlega á samfélagsmiðlum sínum í dag.