Franski knattspyrnumaðurinn Désiré Doué er afar ósáttur við lítinn spiltíma hjá franska stórliðinu París SG á tímabilinu eftir að hann var keyptur á 50 milljónir evra, jafnvirði 7,3 milljarða króna, frá Rennes í sumar.
Doué, sem er aðeins 19 ára gamall, var lykilmaður hjá Rennes þar sem hann lék 76 leiki í öllum keppnum tímabilin tvö á undan.
Franska blaðið L’Équipe greinir frá því að Doué sé afar ósáttur við að hafa aðeins fengið að byrja þrjá leiki á tímabilinu en alls hefur hann tekið þátt í tólf leikjum.
PSG hafði betur í baráttu við Bayern München um að festa kaup á kantmanninum efnilega í sumar en þrátt fyrir ósættið hyggst Doué halda áfram að berjast fyrir sæti sínu í frönsku höfuðborginni.