Ótrúleg VAR mistök í Þjóðadeildinni

Alexander Isak með boltann í leik Svíþjóðar gegn Aserbaísjan.
Alexander Isak með boltann í leik Svíþjóðar gegn Aserbaísjan. AFP/Jakob Akersten

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur viðurkennt stór mistök í leik Svíþjóðar gegn Aserbaísjan í C-deild Þjóðadeildar karla fyrr í vikunni þegar mark sem Alexander Isak skoraði var ranglega dæmt af.

Isak kom boltanum í netið en VAR-dómari greip inn í og dæmdi rangstöðu á sóknarmanninn, sem leikur með Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni.

Hængurinn var sá að þegar mynd var stöðvuð og Isak virtist rangstæður í aðdraganda marksins var það gert á röngum tímapunkti.

Samherji hans Viktor Gyökeres átti eftir að senda boltann inn fyrir á Isak sem glögglega má sjá að er einfaldlega alls ekki rangstæður þegar sendingin kemur.

Dale Johnson, íþróttafréttamaður hjá ESPN, vekur athygli á þessum ótrúlegu mistökum á X-aðgangi sínum og sýnir þar myndina sem stuðst var við og svo myndina sem hefði átt að styðjast við:

Mistökin komu ekki mikið að sök þar sem Svíþjóð vann 6:0 en Isak er þá með einu marki færra á ferilskránni og landsliðsmörk hans enn 15 en ekki 16.

Breska veðmálafyrirtækið Paddy Power ákvað að greiða öllum þeim sem veðjuðu á að Isak myndi skora í leiknum vinning sinn út þrátt fyrir að hann hafi ekki fengið löglegt mark skráð á sig í honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert