Þrátt fyrir að vera einungis 19 ára gömul skrifaði bikarmeistarinn Fanney Inga Birkisdóttir undir þriggja ára samning við sænska knattspyrnufélagið Häcken á dögunum en hún er uppalin hjá Val á Hlíðarenda.
Hlutirnir hafa gerst hratt hjá markverðinum unga en hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik í efstu deild 1. október árið 2022 með Valsliðinu.
Hún varð svo markmaður númer eitt hjá Val í fyrra eftir að Sandra Sigurðardóttir lagði hanskana á hilluna og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með Valsliðinu tímabilið 2023. Í sumar varð hún svo bikarmeistari.
„Þetta er ótrúlega spennandi félag og ég er mjög ánægð með þessi félagaskipti,“ sagði Fanney Inga í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta er rétt skref fyrir mig að taka á þessum tímapunkti á mínum ferli. Ég var búin að leiða hugann að því að fara út í atvinnumennsku eftir tímabilið en ég var samt ekkert alveg ákveðin með það. Mér fannst mikilvægt að taka rétt skref og ég var ekki tilbúin að stökkva á hvað sem var. Ég var alveg tilbúin að vera áfram í Val og halda áfram að vinna í mínum markmiðum þar.
Ég fann strax fyrir miklum áhuga frá félaginu og ég hafði auðvitað farið út á reynslu til þeirra áður. Eftir að þetta kom fyrst upp þá ræddi ég bara við þá og ég veit satt best að segja ekki hvort það voru aðrir möguleikar í boði. Hlutirnir gengu mjög hratt fyrir sig.“
Hefur það komið Fanneyju á óvart hversu hratt hlutirnir hafa gerst á undanförnum árum?
„Ég hef alltaf stefnt hátt en ég skal alveg viðurkenna að ég átti ekki alveg von á að þetta myndi ganga svona hratt fyrir sig. Mér líður eins og ég hafi skrifað ákveðið handrit á blað og það hefur einhvern veginn allt gengið eftir sem ég ætlaði mér og óskaði mér. Það er auðvitað frábært, og ákveðin forréttindi, og vonandi heldur það áfram,“ sagði hún.
Nánar er rætt við Fanneyju á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.