Hrun enska knattspyrnuliðsins Manchester City á lokakafla leiksins gegn Feyenoord í Meistaradeild karla í fótbolta í kvöld var óvænt en ensku meistararnir misstu þar niður þriggja marka forskot.
Staðan var 3:0 fyrir City þegar komið var fram á 75. mínútu en Hollendingarnir skoruðu þá þrívegis á fjórtán mínútum og fóru heim með eitt stig.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, var augljóslega sleginn á hliðarlínunni í leikslok, enda ekki upplifað svona lagað áður á ferlinum.
Þetta er nefnilega í fyrsta skipti í 942 leikjum þar sem hann hefur stjórnað liðum Manchester City, Bayern München og Barcelona sem lið undir hans stjórn missir niður þriggja marka forskot í leik.