Fimmta umferð deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta fór fram í kvöld. Spilaðir voru sjö leikir víðsvegar um álfuna þar sem fjöldi marka voru skoruð. Arsenal gerði góða ferð til Portúgals og vandræði Manchester City halda áfram.
Sporting fékk Arsenal í heimsókn til Lissabon þar sem gestirnir fóru á kostum og unnu sannfærandi sigur, 5:1. Gabriel Martinelli, Kai Havertz og Gabriel sáu til þess að Arsenal leiddi þegar flautað var til hálfleiks, 3:0.
Sporting liðið minnkaði muninn í upphafi seinni hálfleiksins með marki frá Goncalo Inacio áður en Bukayo Saka skoraði fjórða mark Arsenal með marki úr vítaspyrnu. Fimmta mark Arsenal skoraði Leandro Trossard þegar hann skallaði boltann í netið eftir að hafa fylgt eftir skoti frá Mikel Merino sem var varið.
Manchester City tók á móti Feyenoord í Manchester. City hafði fyrir leikinn tapað fimm leikjum í röð í öllum keppnum og var liðið staðráðið í að binda enda á þá taphrinu. Liðið tapaði vissulega ekki leiknum en leikmenn gengu súrir af velli eftir að hafa misst leikinn niður í jafntefli. Lokatölur 3:3. Erling Haaland fiskaði vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og skoraði úr henni sjálfur. City leiddi með einu marki gegn engu í hálfleik.
Ilkay Gundogan skoraði annað mark City í upphafi seinni hálfleiksins með skoti fyrir utan teig sem fór af varnarmanni og í netið. Erling Haaland bætti síðan við sínu öðru marki eftir flottan undirbúning frá Matheus Nunes.
Gestirnir minnkuðu muninn þegar korter lifði leiks en þá skoraði Hadj Moussa eftir mistök Josko Gvardiol í vörn heimamanna. Santiago Gimenez skoraði annað mark gestanna þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum og hleypti hann aftur spennu í leikinn.
Endurkoma gestanna var fullkomnum þegar David Hancko jafnaði á 89. mínútu þegar hann skallaði boltann í tómt markið eftir skelfileg mistök frá Ederson í marki heimamanna.
Barcelona fékk Brest í heimsókn þar sem Robert Lewandowski skoraði sitt 100. mark í Meistaradeildinni þegar hann skoraði úr vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum. Dani Olmo skoraði síðan gott mark um miðjan seinni hálfleikinn með góðu skoti og tvöfaldaði hann þar með forystu Börsunga. Robert Lewandowski bætti við öðru marki sínu með góðu skoti undir lok leiks og innsiglaði góðan sigur heimamanna, 3:0.
Bayern München fékk þá frönsku meistarana í París SG í heimsókn í mikilvægum leik sem heimamenn unnu með minnsta mun, 1:0. Suður-Kóreumaðurinn Kim Min-Jae skoraði eina mark fyrri hálfleiksins þegar hann skallaði boltann í markið af stuttu færi eftir hornspyrnu.
Ousmane Dembélé fékk rautt spjald í liði París SG um miðjan seinni hálfleikinn þegar hann fór í tæklingu á Alphonso Davies og fékk að líta annað gula spjald sitt í leiknum.
Bayer Leverkusen rúllaði þá yfir RB Salzburg, 5:0, þar sem Florian Wirtz skoraði tvívegis í fyrri hálfleik ásamt því sem Alex Grimaldo skoraði frábært mark úr aukaspyrnu áður en flautað var til hálfleiks.
Patrick Schick skoraði fjórða mark Leverkusen með góðu skoti úr teignum um miðjan seinni hálfleikinn. Aleix Garcia skoraði síðan fimmta mark heimamanna með góðu skoti eftir sendingu frá Florian Wirtz.
Inter mætti þá RB Leipzig í leik sem Leipzig þurfti svo sannarlega að vinna. Það fór ekki vel af stað fyrir orkudrykkjaliðið en Castello Lukeba skoraði sjálfsmark í fyrri hálfleiknum sem sá til þess að Inter fór með forystu inn í hálfleikinn. Ekkert var skorað í seinni hálfleiknum og vann Inter að lokum mikilvægan sigur, 1:0.
Þá mættust Young Boys og Atalanta í Sviss þar sem Atalanta fór á kostum og vann stórsigur, 6:1. Mateo Retegui skoraði tvívegis fyrir Atalanta í fyrri hálfleiknum ásamt því að Charles de Ketelaere og Sead Kolasinac skoruðu sitthvort markið. Þá skoraði Silvere Ganvoula mark heimamanna sem fóru með tapaðan leik inn í hálfleikinn.
Charles de Ketelaere bætti við öðru marki sínu í upphafi seinni hálfleiks þegar skot hans fór af varnarmanni og í markið. Lazar Samardzic skoraði sjötta mark Atalanta með góðu skoti undir lok leiks.
Öll úrslit:
Sporting - Arsenal 1:5
Manchester City - Feyenoord 3:3
Barcelona - Brest 3:0
Bayern München - París SG 1:0
Bayer Leverkusen - Salzburg 5:0
Inter - RB Leipzig 1:0
Young Boys - Atalanta 1:6